Herskipið Vasa strandaði og sökk við Stokkhólm í jómfrúarferð sinni árið 1628. Eftir 333 ára legu á hafsbotni var þessu mikla herskipi lyft upp úr sjónum og gat þá loks haldið áfram ferð sinni. Í dag er Vasa best varðveitta 17. aldar herskip heims og til sýnis í sérhönnuðu safni í Stokkhólmi. Vasa er einstakur dýrgripur, enda eru 98% allra hluta skipsins upprunalegir og það er skreytt hundruðum timburstytta.

Auk skipsins státar Vasa-safnið af fjölda sýninga þar sem hin merka saga þessa skammlífa, en þó svo sögulega langlífa skips lifnar við fyrir sjónum gestanna. Safnverslunin býður fjölbreytt úrval gjafavöru og á safninu er vinsæll veitingastaður sem býður bæði létta hádegisverðarrétti og girnilegar kökur. Leiðsögn á ensku er í boði með reglulegu millibili yfir daginn. Þá er einnig hægt að fá hljóðleiðsögn á fjölda tungumála. Myndin um herskipið Vasa og barnamyndin „The Vasa Piglet“ eru sýndar daglega, á fjölda tungumála. Allt er þetta innifalið í aðgangseyrinum.

Velkomin í könnunarleiðangur um ævintýraheima Vasa!

Heimsókn á Vasa-safnið

Opnunartímar á Vasa-safninu

Opnunartímar á veitingastaðnum á Vasa-safninu

Upplýsingar um opnunartíma veitingastaðar er að finna á vefsvæðinu

Aðgangseyrir

Upplýsingar fyrir gesti: Bann við stórum töskum

Ekki er leyfilegt að hafa meðferðis stórar töskur og töskur á hjólum inn á safnið.

Leyfilegt er að hafa handtöskur og minni töskur sem þú heldur á, berð á bakinu eða um mittið, á meðan á allri heimsókninni stendur. Ekki er leyfilegt að skilja tösku eftir án eftirlits.

Ráðlagt er að hafa aukapeysu með sér. Til að hægt sér að varðveita Vasa við kjöraðstæður þarf hitastigið að vera 18 til 20 °C og það getur því oft virst svalt inni á safninu þegar hlýtt er í veðri fyrir utan.

Aðeins er heimilt að taka ljósmyndir og kvikmyndir til einkanota.

Leiðarlýsing

Vasa-safnið er til húsa á Galärvarvsvägen 14, Stokkhólmi.

Fótgangandi eða á hjóli

Það tekur um 10 mínútur að hjóla og um 20 mínútur að ganga að Vasa-safninu frá miðborg Stokkhólms.

Almenningssamgöngur

Hægt er að taka sporvagn, strætisvagn eða ferju að Vasa-safninu. Upplýsingar um ferðir og leiðakerfi er að finna á:

Með einkabíl

Safnið stendur á eynni Djurgården og þar er lítið um bílastæði. Mun auðveldara er að finna stæði við hinn endann á Djurgårds-brúnni, með fram Strandvägen og Narvavägen. Bílastæði fyrir fatlaða eru fyrir utan aðalinngang safnsins.

Um Vasa

HVERS VEGNA VAR SKIPIÐ VASA SMÍÐAÐ?

Árið 1626 ákvað sænski konungurinn Gústaf Adolf II að láta smíða glæsilegt herskip, en að smíðinni komu um það bil 400 karlar og konur í Stokkhólmi. Þetta var mikilfenglegt skip með þremur möstrum og tíu seglum. Skipið var 52 metrar frá toppi og niður í kjöl, 69 metrar á lengd og 1200 tonn á þyngd. Vasa var búið 64 fallbyssum og því var ætlað að gegna lykilhlutverki í sænska sjóhernum.

SKIPSSKAÐINN

Þann 10. ágúst árið 1628 var Vasa hleypt af stokkunum frá skipasmíðasvæðinu fyrir neðan kastalann Tre Kronor. Allar skotraufar stóðu opnar, fallbyssurnar voru í skotstöðu og það var hleypt af viðhafnarskotum. Risaskipið sigldi hægt og tignarlega úr höfn. Þá fékk skipið á sig hvassan hliðarvind og byrjaði að hallast verulega til annarrar hliðarinnar. Vatnið flæddi um opnar skotraufarnar og Vasa sökk. Minnst 30 manns af 150 manna áhöfn skipsins létust. Það liðu rúm 333 ár þar til Vasa fékk aftur að líta dagsljósið.

HVERS VEGNA SÖKK SKIPIÐ?

Á 17. öld höfðu menn ekki enn lært að reikna út stöðugleika farartækis með fræðilegum hætti, heldur byggðu allt á fenginni reynslu. Þegar tæknilegar nýjungar voru kynntar til sögunnar, eins og þungu skotvopnin á tvöfalda þilfarinu á Vasa, þurfti að prófa sig áfram. Vasa reyndist of þungt fyrir ofan sjávarborð og tókst því ekki að rétta sig af þegar skipið fékk á sig hliðarvindinn.

SÁ SEM FANN VASA

Allt frá barnæsku heillaðist Anders Franzén af skipsflökunum sem finna má víða um skerjagarðinn við Stokkhólm. Franzén viðaði að sér heimildum frá 17. öldinni um skipið Vasa og hóf svo leit að skipinu sumrin 1954-1956, með aðstoð dragnóta sem hann festi í vélbát og dró eftir hafsbotninum. Þann 25. ágúst, þegar hann var við leit úti fyrir Beckholm ásamt kafaranum Per Edvin Fälting, festist nótin í stórum eikarbúti. Vasa var komið í leitirnar!

„STÆRSTA PÚSLUSPIL Í HEIMI“

Björgunarstarfið hófs haustið 1957. Kafarar grófu göng undir skipinu til að hægt yrði að koma lyftibúnaði fyrir undir því. 24. apríl 1961 reis skipið loks úr hafinu og var flutt á land, ásamt rúmlega 14.000 lausum viðarbútum. Skipsskrokkurinn og lausu bútarnir voru varðveittir hver fyrir sig og síðan púslað aftur saman, eins og risavöxnu púsluspili.
Enn í dag miðlar Vasa til okkar upplýsingum um samtíð sína og enn er verið að rannsaka hvernig æskilegast er að varðveita skipið til framtíðar, bæði viðarhluta þess og málmhluta, frá skrokknum til búnaðarins. Markmiðið er að tryggja Vasa framhaldslíf um ókomnar kynslóðir.

Þú færð ítarlegri upplýsingar á ensku um sögu Vasa, rannsóknir á skipinu og varðveislustarfið hér: